Rússlandsferð

 

Á sumardögum 2008, um hábjargræðistímann, hélt Karlakórinn Heimir í söngferðalag til Rússlands og Finnlands. Hér verður stiklað á helstu viðburðum þeirrar ferðar!
 
Á fyrsta degi ágústmánaðar 2008 lagði Karlakórinn Heimir upp í söngferðalag til Rússaveldis og Finnlands. Árrisulir kórmenn og fylgdarlið var mætt í Leifsstöð snemma að morgni og gekk furðuvel að koma mannskapnum inn og um borð í vélina. Flugið var tíðindalaust að mestu og þegar til Helsinki var komið tóku við okkur rútur sem fluttu okkur að rússnesku landamærunum. 
Eftir soðningu þar hófst svo pappírsvinnan undir styrkri stjórn fararstjóra og aðalskipuleggjanda ferðarinnar, Péturs Óla Péturssonar frá Vindheimum. Þar er vissara að vanda sig því Rússarnir eru ekki mikið fyrir að gantast með þá hluti alla saman. Eftir smátafir (Erlingur var með gamla bítlamynd í passanum) komumst við þó í gegn og brunuðum til Pétursborgar þar sem tekið var á móti okkur með kostum og kynjum á Hotel Moskvu. Fremstar í flokki voru þar þrjár ungar konur sem virtust einmitt hafa það hlutverk  þarna að taka vel á móti þreyttum ferðalöngum og veita þeim ýmsan beina. 
Flestir voru þreyttir eftir langan ferðadag en menn hresstust nú fljótt og jafnvel fréttist af mönnum syngjandi á hæstu hæðum hótelsins góða. Fylgdi jafnframt sögunni að söngnum hafi verið misjafnlega tekið og mönnum bent á að affarasælla væri líklega að syngja á hinni svokölluðu Bjarnarkrá í kjallara hótelsins. Einn sérstaklega vinsamlegur barþjónn bauðst meira að segja til þess að fá öryggisverði hótelsins til að fylgja okkur þangað persónulega. Hún gerist vart betri þjónustan! Bjarnarkráin í kjallaranum varð úr þessu helsti samkomustaður hinna skagfirsku ferðalanga og kunnum við yfirleitt vel að meta vistina þar enda ísbirnir þar uppi um alla veggi. Dauðir.
 
Á laugardegi var okkur smalað í rútur og farið með okkur í stutta, en fróðlega, skoðunarferð um miðbæ St. Pétursborgar. Margt að sjá og of langt mál að telja það allt upp en fyrsta stoppið var við bakka Nevu, fljótsins sem rennur í gegnum borgina. Þar náði Guðmann að kría út eina húfi úr götusala sem var þó heldur tregur til viðskiptanna. Menn áttu þó eftir að gerast stórtækari í húfukaupum seinna í ferðinni.  Skammt undan bakkanum stóð töluvert járnvirki upp úr vatninu sem vakti töluverða athygli kórmanna. Margar ágiskanir komu fram um hvað þetta væri en langlíklegast þótti að þarna væru Rússarnir að reyna að ala fisk eins og menn gerðu í Fljótum í gamla daga. Seinna kom þó í ljós að þetta voru bara gosbrunnastútar. 
[G2:1626]
Sandholt Skipstjóri , Captain Higgerson og Kommissar Valgardsson.
(Smellið á myndir til að stækka þær)
Þaðan var haldið að virki St. Péturs og Páls þar sem grafir Romanov ættarinnar voru skoðaðar. Reyndar létum við okkur nægja að skoða marmarakisturnar á gólfinu en létum grafirnar alveg eiga sig. Eftir hádegisverð í húsi arkitektanna þar sem menn gæddu sér á kjúklínga(skíthoppara)súpu og stroganoffi var haldið til Kirkju heilags Ísaks sem er gríðarmikið mannvirki og fagurlega skreytt. Höfðu menn á orði að hundrað tonna granítsúlurnar sem héldu uppi kirkjuloftinu hefðu vart fengist í kaupfélaginu. Enda þurfum við svosem ekkert á svona súluræksnum að halda. 
Síðdegið var svo gefið frjálst og nýttu menn það á ýmsan hátt, meðal annars er það haft fyrir satt að þrír kórfélagar hafi borgað sig inn í kirkjugarð sem stóð handan götunnar, gegnt hótelinu og skoðað þar grafir ýmissa stórmenna. Kvöldverðarhlaðborði hótelsins voru svo gerð góð skil og var almenn ánægja með hljómsveit hússins sem lék undir dansi um kvöldið, sérstaklega þó fagurlimaða söngkonuna sem var með hár "niður fyrir nammi" eins og einn orðaði það.
 
Næsta dag stóð töluvert til en það var að fara í Vetrarhöllina mögnuðu og skoða þar listaverkasafnið Hermitage sem hófst með því að Katrínu miklu vantaði nokkrar myndir á stofuvegginn hjá sér en endaði með einhverju stærsta listaverkasafni veraldar. Okkar áreiðanlegu leiðsögumenn tjáðu okkur það í upphafi ferðar að þarna væri svo margt listaverka að ef menn ætluðu sér að skoða þau öll og eyða í það eins og einni mínútu á hvert þeirra þá myndi það taka okkur um þrettán ár að komast í gegnum safnið. Menn dæstu nú töluvert yfir þessum tíðindum en sáu þó fram á að komast í kaffi um 2012. En, viti menn, safnið var skoðað á mettíma og á eftir var sungið örlítið fyrir gesti og gangandi úti í garði, í rigningunni. 
Svo var gengið til rútna en þá vildi ekki betur til en svo að við týndum tveimur mestu ferðareynsluboltunum úr hópnum, þeim Pálma og Birgittu. Þau fundust þó fljótt og komust með okkur í hádegismat á Demidov veitingastaðnum þar sem boðið var upp á kjúklingasúpu, kjötmeti og kartöflubrauð og fagurskapaða sykurmola. Kvöldið var svo frjálst og var ágætlega nýtt af flestum að við teljum.
 
Heimsóknin í verslun Lomonosov postulínsverksmiðjunnar að morgni mánudags var ekki alveg árangurslaus fyrir alla, verslun var töluverð og telja verður verslunareigandann ánægðan þrátt fyrir að fyrrum kaupfélagsstjóri hafi afhausað einn hana í búðinni. Sigurði Hansen var loks útvegaður pappír og skriffæri til að festa á blað vísur og féllu þær nokkrar síðar í ferðinni og einar þrjár einmitt þarna í postulínsbúðinni.
Örlög geta orðið stór
og endað dagsins grínið
Þegar gamall karlakór
kemst í postulínið (SH)
 
Guðmann var ansi hreint hrifinn af úrvalinu þarna í búðinni og vildi að sjálfsögðu fá að handfjatla dótið, bara svona til að sjá hvort það færi ekki vel í hendi. Það endaði þó með því að í gólfið fór dýrindis sykurkar í líki hana og svo fór að haus hanans brotnaði það illa að honum var ekki hugað líf. Af þessu tilefni orti Sigurður:
 Andskotinn er orðinn laus
eflist harmaélið
Guðmann missti hanahaus
með hendurnar um stélið (SH)
Guðmann var nokkuð ánægður með vísuna en sagði okkur samt frá því að þetta væri nú ekki fyrsti haninn sem hann kæmi fyrir kattarnef því fyrir allöngu síðan hafði hann gert það sér til dundurs að morgni dags að hálshöggva hana sem hann síðan át upp til agna seinna um morguninn...
 
Guðmanni eitt sinn tókst að höggva hana
og hafa hann stuttu seinna í morgunmat
svo varð hann óvart öðrum hana að bana
sem ekki nokkur maður étið gat (SH)
 
Eftir verslunina fengum við okkur kjötbollur á hótelinu og hvíldum okkur svo ærlega fyrir konsertinn um kvöldið í St. Petrii kirkjunni á Nevsky Prospekt sem er aðalgata bæjarins. Menn voru hóflega bjartsýnir um aðsókn en svo fór að lokum að þarna söfnuðust um þrjú hundruð manns í sundlaugarbotninn sem hafði endurheimt stöðu sína sem kirkjugólf eftir fall kommúnismans. Kórinn söng þarna af öllum lífs og sálar kröftum og ekki síður af töluverðri gleði enda hljómaði vel í kirkjunni. Gerður var góður rómur að flutningi kórs og einsöngvara og ekki síður að kynningum Katrínar Brynju Valdimarsdóttur frá Bakka í Viðvíkursveit sem kynnti efnisskránna af miklum skörungsskap á rússnesku. 
[G2:1365]
Sungið í St. Petrii
Eftir velheppnaðan konsert var haldið til kvöldverðar í Síðustu Höllinni sem í ljós kom að var staðsett í fimm hæða raðhúsi skammt frá kirkjunni. Veislan sú var ekki af verri endanum og gestir fóðraðir á góðum mat og ekki síður andlegu fóðri því þarna lék fyrir okkur stórskemmtileg sellósveit (án gríns) og ekki var píanóleikurinn af verri endanum en um hann sá konsertpíanisti borgarinnar. Eitthvað var um að menn kíktu ofaní fleyga en þó ekki mikið. Þetta var gott kvöld.
 
Þriðjudagur var frídagur, engar skipulagðar skoðunarferðir og menn gátu gert nokkurnveginn það sem þeir vildu. Sumum þótti þetta ómögulegt og skipulögðu skoðunarferð til að sleppa við fríið. Þannig vildi það til að lítill hluti hópsins fór í gönguferð á slóðir Dostojevskí og gekk um sögusvið Glæps og Refsingar undir öruggri stjórn Gunnars Sandholt og áðurnefndrar Katrínar Brynju. Í ferðinni stoppuðum við einnig í rússneskri matvörubúð þar sem fékkst ágætisvodki á 35 rúblur flaskan, svona sirka hundraðkall. Ágætisferð þegar upp var staðið, eða öllu heldur sest niður því þetta var töluvert labb. Ekki bárust miklar fregnir af því hvernig menn höfðu eytt deginum en almenn gleði virtist ríkja í hópnum þannig að það hefur væntanlega farið allt vel fram.
Lengsta skoðunarferðin var farin til Novgorod, eða Hólmgarðs eins og hún hét í fyrri ferðum víkinga í austurveg.  Þetta var löng ferð í rútum en skemmtileg og menningarverðmætin grandskoðuð.  Minnisverðast úr þeirri ferð er þó líklegast "pissusprengurinn" sem var orðinn nær óbærilegur loks er við náðum aftur á hótelið.  Allt fór þó vel.
Á fimmtudegi var haldið til Peterhof og gengið um gosbrunnagarðana þar sem kallaðir hafa verið hinir rússnesku Versalir þó sumir telji það gera fulllítið úr glæsileika garðanna. Versalir voru þó kveikjan að því að Pétur mikli lét hanna garðana á sínum tíma.
 [G2:1311]
Í þessu stórkostlega umhverfi söng kórinn 2-3 lög og naut við það góðs liðsinnis Jóns í Selinu sem fékkst til að ljá okkur krafta sína. Gestir garðanna tóku okkur vel og töldu víst að þarna væri kanadískur kór á ferðinni enda einn kórmanna kyrfilega merktur í fremstu röð. Reynt var eftir föngum að eyða þessum misskilningi en óvíst um árangur. 
Við gönguna gegnum garðana kom í ljós að Pétur mikli hafði verið töluvert hrekkjusvín og gert sér það að leik að fela litla stúta nálægt göngustígum, sem síðan sprautuðu vatni á gesti og gangandi ef menn stigu niður fæti á rangan stað. Kórmenn sluppu að mestu við þessi firn en nokkrir blotnuðu þó og líklega mest þeir félagar Árni Bjarnason og Guðmann Tobíasson. En þetta var nú bara vatn og þornaði fljótt. 
Eftir skoðun á görðunum var komið að því að bleyta okkur svolítið að innanverðu og var haldið að veitingastaðnum Podvorija þar sem okkur hafði verið búin mikil veisla að rússneskum sið. Sumir voru hálfkvíðnir yfir því að matnum yrði erfitt að koma niður en það reyndust óþarfa áhyggjur því þó sumir réttirnir kæmu okkur Skagfirðingum spánskt (!) fyrir sjónir, eins og tildæmis forréttur sem var steikt lambaket í skyri, þá bragðaðist þetta allt saman ágætlega og var skolað niður með vodka að sjálfsögðu. Þarna brá líka svo við að sungið var fyrir okkur af miklum myndarskap og fljótlega leystist þessi veisla upp í almenna gleði og skemmtun og er óhætt að segja að síðasti dagurinn okkar í Rússlandi hafi tekist aldeilis ljómandi vel.
 
Skrítið frá því að segja að maður hafi verið miklu lengur að komast út úr Rússlandi en inn í það en sú varð nú engu að síður raunin föstudaginn 08.08.2008 þegar við keyrðum tilbaka til Finnlands. Rútuferðin að landamærunum var rúmir 2 tímar og máttum við síðan dúsa í þrjá tíma í viðbót í rútum vorum á landamærunum þar sem Þjóðverjagrey á undan okkur var með alla pappíra í ólagi og það finnst Rússunum ekkert sérstaklega sniðugt. 
Þetta hafðist þó allt að lokum og við renndum í hlað á hótelinu okkar í Helsinki um kvöldmatarleytið, hálfþrekaðir eftir daginn. Á laugardeginum var okkur sleppt lausum í miðbæ Helsinki, margir nýttu sér það til verslunarferða og eins fóru einhverjir í siglingu um sundin blá. Allir skiluðu sér heim að lokum og daginn eftir bjuggum við okkur út uppúr hádeginu til þess að syngja við messu í Klettakirkjunni svokölluðu sem stendur þarna skammt frá hótelinu. 
Kórmenn voru almennt sammála um að ekki hafi þeir heyrt mikið hver í öðrum þarna í kirkjunni en áheyrendur fullvissuðu okkur um að kórinn hafi sjaldan hljómað betur. Messan dróst nokkuð á langinn og voru líklega fleiri en einn og fleiri en tveir sem dottuðu undir prédikuninni en þó hafa þær nú sjálfsagt heyrst lengri stólræðurnar í sumum sóknum í Skagafirði. Allt hafðist þetta nú samt og eftir messu var haldið í móttöku til Hannesar Heimissonar, sendiherra Íslands í Finnlandi sem við síðan buðum með okkur í hátíðarkvöldverð á hótelinu seinna um kvöldið. Sá kvöldverður fór vel fram, maturinn ágætur og menn töluvert mælskir, bæði í bundnu máli og óbundnu og lítið sem ekkert til vandræða.
Svo var komið að því á sunnudeginum að halda heim og þrátt fyrir lítilsháttar seinkun á flugi vélarinnar okkar þá komumst við á endanum í loftið og lentum heilu og höldnu um það bil kortéri seinna að meðteknum tímamismun. Allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, góð ferð að baki og gott að komast heim.
Í stuttu máli sagt, vel heppnuð ferð um forvitnilegar slóðir, góður félagsskapur, hnökralaus skipulagning og frábær fararstjórn Péturs Óla og lífleg og skemmtileg leiðsögn þeirra Katrínar Brynju.  Ekki ónýtt að fá leiðsögn um slóðir Péturs mikla og Katrínar miklu frá Skagfirðingum sem bera sama nafn !
 
Hjalti Árnason
 Fleiri myndir eru á myndasíðu, smellið hér: Myndasafn