Formlegu starfsári lokið

Formlegu starfsári kórsins 2015-2016 lauk með Sæluvikutónleikum í Miðgarði.  Gestasöngvari kvöldsins, Elmar Gilbertsson tenór, söng með okkur nokkrar nokkrar perlur úr smiðju þeirra Puccini, Sieczyński, Jóns Björnssonar og Eyþórs Stefánssonar við frábærar viðtökur áheyrenda og eftir að kynnir kvöldsins hafði með afgerandi ættfræðirökum eignað okkur piltinn stakk hann sér í miðjan tenórinn og söng með okkur lokalag tónleikanna, Skagafjörður.

Þó að nú gefist næði til að sinna sauðburði, túnavinnslu og öðrum vorverkum verður kórinn kallaður saman í lok júní en þá liggja fyrir nokkur verkefni s.s setning Landsmóts hestamanna, afmæli Vesturfarasafns og tónleikar á austurlandi.  Það kann að hljóma undarlega að við séum að þvælast milli landshluta um hábjargsæðistímann fyrir eina tónleika, en ekki er allt sem sýnist og ekki hægt að upplýsa um meira að sinni því það er ekkert óvænt við óvæntar uppákomur sem eru tilkynntar fyrirfram.

Gestum okkar og velunnurum kórsins óskum við gleðilegs sumars og þökkum velvilja og góðar viðtökur á liðnu starfsári.

deild: