Umsagnir

 

Fyrirsögn: Óperutöfrar

 

Haus: Haukur Ágústsson skrifar um tónlist

 

Mdtxt: Frá tónleikunum um síðustu helgi sem mörkuðu upphaf nýs tónlistarárs hjá SN.

 

 

Sinfóníuhljómveit Norðurlands hóf starfsár sitt, 2011-2012, þann 26. ágúst með tónleikum sem nefndir voru Óperutöfrar á Akureyrarvöku. Tónleikarnir voru haldnir í Hamraborg, stóra salnum í Hofi, hinu nýja menningarhúsi Akureyringa – og um leið Norðlendinga allra.

 

Svo sem heiti tónleikanna ber með sér var það óperutónlist, sungin og leikin, sem boðið var upp á. Allur hljóðfæraleikur var í höndum sinfóníuhljómsveitarinnar undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Í heild tekinn var leikur hljómsveitarinnar allgóður. Hún hóf tónleikana á forleik óperunnar Rakarinn frá Sevilla eftir Gioachino Rossini og gætti þar nokkurrar ónákvæmni, ekki síst í fyrstu fiðlu. Í undirleik með hinum sungnu atriðum fylgdi hljómsveitin almennt vel og studdi við aðra flytjendur, en fyrir kom að styrkur hennar var nokkru of mikill, svo að raddir einsöngvara náðu ekki fram úr hljóðfæraleiknum.

 

Einsöngvarar á tónleikunum voru Helga Rós Indriðadóttir sópran, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór, og Ágúst Ólafsson bassi. Helga Rós er nánast „wagnerísk“ á sviði, en auk þess skartar hún mikilli rödd sem fer vel á öllu sviði sínu. Þó lýtir það hana nokkuð að heldur mikill skjálfti er á neðra sviði raddarinnar, en hið efra hins vegar þróttmikið og styrkt, eins og fram kom til dæmis í túlkun hennar á aríu úr La Boheme eftir Giacomo Puccini, þar sem hún fór á kostum. Sigríður átti mjög skemmtilega spretti, einkum fyrir hlé, svo sem í aríu Rosinu úr óperunni Rakarinn frá Sevilla. Eftir hlé söng Sigríður Habanera úr Carmen eftir Georges Bizet og náði því miður ekki tökum á þeim hita í túlkun sem þessu verki heyrir. Gissur Páll hefur til að bera mjög áheyrilegan tenór sem naut sín prýðilega í þeim verkum sem hann flutti. Ekki spillti ánægjuleg sviðsframkoma hans sem hvergi brást og litaði túlkun hans skemmtilega. Ágúst hefur góðan bassa, þróttmikinn og ákveðinn. Þó mundi nokkru meiri breidd bæta enn en víða var mjög vel gert, svo sem í söng nautabanans úr Carmen, en þar varð það slys, að meðflytjendur kæfðu rödd Ágústs gersamlega, þar sem styrkur þeirra varð allt of mikill.

 

Karlakórinn Heimir úr Skagafirði tók þátt í flutningi nokkurra verkanna á tónleikunum. Hann var ekki að fullu skipaður – vantaði um tuttugu raddir að sögn kórmanna sem í Hofi komu fram. Þetta atriði skaðaði þó ekki og er ekki vafi á því að undirritaður hefur ekki í annan tíma heyrt kórinn betri. Hann naut sín vel í Pílagrímasöngnum úr Tannhäuser eftir Richard Wagner, þó að nokkru betur hefði mátt vinna með upphafshluta verksins sem var ívið of sterkur, en risið var gott og söngurinn þéttur og þróttmikill, svo að nánast hrífandi var.

 

Tónleikarnir voru mjög vel sóttir – salurinn þéttsetinn, að því að séð varð – þakklátum áheyrendum sem fengu aukalag, Gullnu vængir, að launum fyrir langt og ákveðið lófatak að efnisskránni lokinni. Vafalaust er, að þrátt fyrir ýmiss smáatriði sem að má finna, var hér um að ræða gott upphaf starfsársins og full ástæða til þess að hlakka til þess sem enn hefur ekki verið flutt, en upp á er boðið á komandi vetri.

 

Haukur Ágústsson

 

 

mánudaginn 6. desember, 2004 - Tónlist

TÓNLIST - Grafarvogskirkja [g2:514]

Skagfirzk aðventa  Kórtónleikar

Aðventutónleikar Karlakórsins Heimis. Einsöngur: Elín Ósk Óskarsdóttir; Pétur Pétursson & Sigfús Pétursson frá Álftagerði. Thomas R. Higgerson píanó og Berglind Stefánsdóttir flauta. Kynnir: Gunnar Sandholt. Stjórnandi: Stefán R. Gíslason. Föstudaginn 3. desember kl. 20:30.

INNLEND og erlend verk, trúarleg lög, jólalög og hugljúf kórverk voru uppistaða á aðventutónleikum skagfirzka Karlakórsins Heimis á föstudag, eins og sagði í kynningu. Ólíkt átthagatónleikum kórsins fyrir fimm árum á sama stað þegar hverfisteppandi bílaumferð áheyrenda þurfti á lögreglustjórn að halda, var aðsókn að þessu sinni hófleg, þótt þætti annars víðast hvar góð.

Fyrsta númerið, hinn vænlegi varaþjóðsöngskandídat Ísland ögrum skorið, var aðeins annað tveggja á 16 liða dagskrá sem sungið var án undirleiks. Var það miður, því kórinn hefði ekki aðeins gott af því að syngja meira a cappella, heldur voru nokkur atriði beinlínis frumsamin sem slík. Ave verum corpus Mozarts fór t.a.m. ekki vel við (í þokkabót allt of sterkan) orgelundirleik, og Það aldin út er sprungið (Prætorius) var sömuleiðis aldrei hugsað með undirleik. En e.t.v. var kórinn ekki í sínu fræknasta formi um þetta leyti og benti áherzlan á hljóðfærastuðning til þess, sem blasti raunar við hér og þar í formi daufrar og siggjarnrar tónmyndunar á veikum styrk; fyrst í Í fögrum dal og hinu snotra lagi Árna Gunnarssonar Í Austurdal er náði meira flugi sem aukalag í lokin. Tónarnir Sjöbergs hélt hins vegar skagfirzkum gæðingastaðli, og einnig Þú borgin litla Betlehem (Redner), þó að geri frekar ráð fyrir frjálslegu einsöngskrauni en hópsöng í stirðum stöðluðum áttundapörtum. Þar, sem á nokkrum stöðum öðrum, lék einnig með Berglind Stefánsdóttir á þverflautu með fallega sléttum tóni, þótt vel hefði mátt útsetja kontrapunktískari fylgirödd fyrir hana í stað þess að elta aðeins aðallaglínu.

Heimóttarlegi hraðafgreiðslumátinn "erlent lag" (sem m.a.s. RÚV er ekki syndlaust um) sást við tvö atriði í tónleikaskrá, en sem betur fór komu nánari upplýsingar fram af fyrirmyndargóðum kynningum kórfélagans Gunnars Sandholt. Meðal kóratriða án einsöngs eftir hlé stóðu upp úr hollenzka Þakkarbænin er hélt góðri hæð á vandmeðförnu pianissimo fram að loka-fortinu, og Pílagrímakórinn úr Tannhäuser var glæsilega víðfeðmur.

Elín Ósk Óskarsdóttir var ekki vel fyrirkölluð í pestartíðinni og átti erfitt með að færa sína miklu rödd niður á ísmeygilegt ungpíuplan Laurettu í O mio Babbino caro Puccinis, en tókst mun betur upp í Kór munkanna og Leonoru úr La Forza Verdis, Ave María Kaldalóns og Ó helga nótt Adams. Sigfús Pétursson fór dúnmjúkt með einsöng í Allsherjar Drottinn (Panis Angelicus) e. Franck, og svo afbragðsfallega með líðandi kyrrð rússneska Ökuljóðsins að hagvanur Donkósakki hefði varla gert betur.

Ríkarður Ö. Pálsson.

 

Eftirfarandi gagnrýni / umsögn er skrifuð af Jóni Ólafi Sigurðssyni, tónlistargagnrýnanda Mbl. og organista, um tónleika Karlakórs Reykjavíkur eldri félaga og Karlakórsins Heimis í tónleikahúsinu Ými 28. mars 2004. Á fyrri tónleikunum, kl. 14:00 heiðraði forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Mousajeff, kórana með nærveru sinni. Hér birtist sá hluti gagnrýninnar, sem fjallar um tónleikana í Ými. - V.K.

Morgunblaðið, þriðjudaginn 13. apríl, 2004 - Tónlist

TÓNLIST - Ýmir

 

Kveður að karlakórum

 

KÓRTÓNLEIKAR

 

Karlakór Reykjavíkur eldri félagar. Einsöngvari Eiríkur Hreinn Helgason. Undirleikari Bjarni Jónatansson. Stjórnandi Kjartan Sigurjónsson. Karlakórinn Heimir í Skagafirði Einsöngvarar Margrét Stefánsdóttir og Sigfús Pétursson. Undirleikari Thomas R. Higgerson. Stjórnandi Stefán R. Gíslason. Sunnudagurinn 28. mars 2004 kl. 17.00.

 

KARLAKÓRINN Heimir úr Skagafirði heimsótti eldri félaga Karlakórs Reykjavíkur og sungu þeir saman tvenna tónleika sunnudaginn 28. mars.

Undirritaður hlýddi á síðari tónleikana. Heimamenn hófu tónleikana og höfðu 9 lög á efnisskránni. Nokkuð var flutningur laganna misjafn. Fyrsta lagið Mótið eftir Jón Þórarinsson var frekar dauflegt í eyrum undirritaðs svo og madrigali Thomasar Moreley Mailjóð með texta eftir Gunnar Guttormsson. Þessi glaði madrigali þar sem fjallað er um tíma vorsins var ansi bragðdaufur og þunglamalegur og 1. tenór lengi ansi aumingjalegur og ekki hreinn í hæðinni, en endirinn var kröftugur. Þau lög efnisskrárinnar sem stóðu upp úr voru rússneska þjóðlagið Nú er vor, Hermannakórinn eftir Gounod og Hraustir menn þar sem Eiríkur Hreinn söng einsöng. Nokkur aukalög fylgdu þar af eitt nýtt og fallegt lag eftir Pálmar Þ. Eyjólfsson sem nefnist Sjómannasöngur sem var frumflutt sem aukalag á fyrri tónleikunum.

Þá var komið að gestunum að hefja upp raust sína. Strax í fyrsta laginu kom í ljós hvað hljómurinn í kórnum er góður og hreinn með góðu jafnvægi milli radda og innbyrðis í röddunum. Það var sama hvort sungið var á veiku nótunum eða sterku, kórinn var alltaf tandurhreinn og allur flutningurinn vel mótaður og músíkalskur og stjórnandinn Stefán Gíslason kann að láta tónlistina og söng kórsins fljóta áfram. Alls voru átta lög á efnisskránni.

Einsöngvarar með kórnum voru tveir, Margrét Stefánsdóttir sem söng fallega O Mio Babbino Caro eftir Puccini og í Kór prestanna og Leonoru úr Valdi örlaganna eftir Verdi þar sem einsöngur og kór féllu vel saman. Sigfús Pétursson fór á kostum í hinu eina og sanna rússneska Ökuljóði sem Stefán Íslandi gerði frægt á sínum tíma. Björt og mjúk tenórrödd Sigfúsar ásamt mjúkum og afslöppuðum söng kórsins skapaði þvílíkan frið og ró að það mátti heyra saumnál detta og allt svo tandurhreint og skýrt. Það er erfitt að draga eitthvað eitt fram yfir annað í flutningi kórsins en má þó auk fyrrgreindra laga nefna lög eins og Oh What a Beutiful Morning sem sungið var á íslensku, Oklahoma eftir Rodger og Hammerstein (á íslensku) og Wien, du Stadt meiner Träume eftir Sieczynski sem var virkilega glæsilegt.

Tónleikarnir enduðu á að kórarnir sungu saman tvö lög. Fyrst Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson sem var vel flutt með góðum öldugangi, hárfínt á veiku tónunum og gríðarlega öflugt á þeim sterku. Stefán R. Gíslason stjórnaði. Síðara lagið var Þér landnemar eftir Sigurð Þórðarson Sem var glæsilega sungið undir stjórn Kjartans Sigurjónssonar.

 ...

Jón Ólafur Sigurðsson

 

Eldir Umsagnir:

 

graenland.jpg
umsogn3.jpg
umsogn4.jpg
umsogn6.jpg