Myndir frá Atvinnu, mannlífs og menningarsýningu
Heimir sýndi á sér aðrar hliðar nú um helgina með kynningarbás á Atvinnu, mannlífs og menningarsýningunni í Íþróttahúsinu á Króknum. Þar sýndum við ýmsa muni og myndir sem tengjast sögu kórsins meðal annars auglýsingaspjöld úr utanlandsferðum og innrammaðar myndir af öllum söngstjórum frá upphafi.
Okkar helsta tromp var málverk sem listamaðurinn Hallgrímur Helgason málaði í stærðinni 4 x 2,5 m og studdist við kórmynd af plötumslagi sem er líklega tekin í kringum 1990. Hallgrímur var svo almennilegur að lána okkur verkið á þessa sýningu. Þetta vakti mikla athygli og skemmti fólk sér við að bera kennsl á kórfélaga, menn breytast talsvert á 20 árum og nokkrir eru fallnir frá. Myndir frá sýningunni má finna hér: Sýning
Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna á básinn og tökum sannarlega til okkar áeggjanir um að málverkið verði kyrrsett hér í firðinum með einhverjum hætti. Þeim Heimismönnum sem unnu að undirbúningi sýningarinnar og þeim sem stóðu vaktir meðan á henni stóð þökkum við vel unnin störf. Verkefnisstjórnin á heiður skilið, þetta var okkur til mikils sóma.