Kóramót á Sæluviku
Laugardaginn 1. maí verða Sæluvikutónleikar í Miðgarði. Að venju eru það Heimir og Rökkurkórinn sem bjóða til sín karlakór og blönduðum kór og í ár eru sunnlenskir straumar allsráðandi
Gestir Heimis að þessu sinni eru hinir bráðhressu félagar í Karlakór Hreppamanna sem Edit Molnár stjórnar af mikilli röggsemi. Það voru 20 karlar í uppsveitum Árnessýslu sem tóku sig til og stofnuðu kórinn á vordögum 1997. Fyrstu opinberu tónleikarnir voru í Heilsuhælinu í Hveragerði að kvöldi 30 apríl það ár og má því segja að hér á Sæluviku séu þeir að fagna sínu 13. starfsári. Edit Molnár hefur stjórnað kórnum frá upphafi og hennar ágæti eiginmaður Miklós Dalmay sér um undirleik, en hann er einn af virtustu tónlistarmönnum landsins, hefur m.a. verið einleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Karlarnir eru nú um 60 talsins og teljast því með fjölmennari karlakórum hér á landi. Þeir þykja framsæknir og skemmtilegir og okkur Heimismenn hlakkar ákaflega til að taka lagið með þeim, bæði á tónleikum og jafnvel eftirá.....
Gestakór Rökkurkórsins er Söngsveit Hveragerðis undir stjórn Margrétar Stefánsdóttur sem heimamenn þekkja betur sem Möggu í Víðidal. Söngsveitin var einnig stofnuð í apríl 1997, hefur starfað óslitið síðan og komið fram víða um land. Einnig hafa þau gefið út geisladisk. Margrét á það til að syngja einsöng með sveitinni og það væri ekki amalegt að fá að heyra í Margréti nú í lok Sæluviku.
Dagskráin hefst kl. 20:30 og stendur fram eftir kvöldi, en að henni lokinni leikur hljómsveit Geirmundar fyrir dansi. Aldurstakmark á dansleik er 18 ár. Miðaverð á söngskemtun er kr.2500.- og kr. 2000 á dansleikinn.