Sumarfrí

Nú erum við karlarnir komnir í frí eftir viðburðaríkt starfsár. Mun ég rekja það hér í stuttu máli.

Frá hausti fram að áramótum var unnið við að fullgera dagskrá sem var frumsýnd á Þrettándaskemmtun í Miðgarði og hét Upp skalt á kjöl klífa.  Unnið var með Örlygsstaðabardaga. Agnar á Miklabæ sauð saman handrit og Stefán söngstjóri valdi lög sem hæfðu efninu.  Agnar og Hannes Örn Blandon fluttu textann sem var brotinn upp með viðeigandi leikhljóðum og söng kórsins.  Þessi dagskrá var einnig flutt á Hvammstanga, í Langholtskirkju, í Laugaborg í Eyjafirði og loks tekin upp í Miðgarði.

"Tveir góðir saman" var vinnuheiti samstarfsverkefnis Heimis og Karlakórs Reykjavíkur. Kórarnir hittust tvisvar sinnum í mars og héldu 4 tónleika, á Akureyri, í Miðgarði og í Langholtskirkju. Það fór afar vel á með mönnum og flestir sammála um að þetta megi endurtaka á einhvern hátt.  Þá sýndu KR-ingar mikin höfðingsskap er þeir afhentu okkur forláta ferðatösku Stefáns Íslandi til varðveislu í Stefánsstofu.

Vorferð var farin á Dalvík og Ýdali með Óskar P. í farteskinu og á Sæluviku áttum við frekar annríkt. Fyrst ber að nefna mikla Atvinnu og mannlífssýningu á Sauðárkróki þar sem kórinn sýndi á sér aðra hlið með ýmsum munum úr starfi liðinna ára og málverki Hallgríms Helgasonar.  Einnig komum við fram með Málmblásarasveit Norðurlands, komum fram á Friðriksvöku og loks á Sæluvikutónleikum.  Gestakór okkar skipuðu sunnlenskir höfðingjar úr Karlakór Hreppamanna sem komu hingað norður til að skemmta Skagfirðingum og ekki síður, skemmta sér með Skagfirðingum !  (Sjá bráðskemmtilega ferðasögu Þorleifs Jóhannessonar á heimasíðu Kk. Hreppamanna hér:  Ferðasaga  ).  Starfsárinu lukum við svo með Árshátíð í umsjón 1. bassa.

Við viljum þakka öllum þeim sem sóttu þessa viðburði kærlega fyrir komuna og samstarfsaðilum viljum við þakka fyrir góð kynni og góðar stundir. 

Við minnum á ítarlegri umfjöllun hér á fréttasíðunni hjá okkur og skemmtilegar myndir úr starfinu á myndasíðunni.

 

 

deild: