Spennandi vetur í vændum!
Vetrarstarf Karlakórsins Heimis hefst með æfingu í Miðgarði mánudagskvöldið 18. október kl. 20:30. Megin þema vetrarins verður kynnt síðar en það verður með hefðbundnara sniði en undanfarin ár þar sem við höfum blandað saman leiklestri og söng.
Stefán söngstjóri tekur sér ársfrí frá stjórnun kórsins af persónulegum ástæðum og höfum við ráðið Helgu Rós Indriðadóttur til að leysa hann af. Helga Rós frá Hvíteyrum er okkur að góðu kunn sem einsöngvari, óperusöngkona og leiðbeinandi á vinsælum námsskeiðum fyrir söngfólk hér í firðinum. Sjá nánar: Yfirlit yfir feril
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kona stjórnar Heimi, því Stefán hefur áður fengið leyfi frá störfum og þá hljóp Sólveig Sigríður Einarsdóttir, betur þekkt sem Sísa á Mosfelli, í skarðið með góðum árangri.
Sem fyrr mun Thomas Higgersson annast undirleik og raddþjálfun. Við minnum á að kórinn stendur öllum opinn sem hafa áhuga á skemmtilegum félagsskap og telja sig geta sungið tiltölulega skammlaust. Áhugasamir geta haft samband við Jón formann í síma 8921319 eða sent póst á heimir@heimir.is