Fréttir

Fyrsta æfing vetrarins

Það var glatt á hjalla í Miðgarði þegar Heimismenn hittust á fyrstu æfingu vetrarins.  Heimtur eru allgóðar, en ekki sást til nýliða á þessari æfingu, hvað svo sem síðar verður.

Nýja kórstýran okkar er mörgum kostum gædd og skiptir um hlutverk þegar henni hentar.  Í kvöld var það söngkennarinn Helga  Rós sem rifjaði upp með okkur grundvallaratriði í öndun og beitingu andlitsvöðva.  Voru menn mis frýnilegir framan af æfingu, en hjá flestum var þetta þó fljótt að koma.  Svo var rennt gegnum 3 ný lög, þ. e. a. s. ný í eyrum þeirra yngri og óreyndari, en reynsluboltarnir töldu sig þekkja þau ágætlega. 

Spennandi vetur í vændum!

Vetrarstarf Karlakórsins Heimis hefst með æfingu í Miðgarði mánudagskvöldið 18. október kl. 20:30. Megin þema vetrarins verður kynnt síðar en það verður með hefðbundnara sniði en undanfarin ár þar sem við höfum blandað  saman leiklestri og söng.

Stefán söngstjóri tekur sér ársfrí frá stjórnun kórsins af persónulegum ástæðum og höfum við ráðið Helgu Rós Indriðadóttur til að leysa hann af.  Helga Rós frá Hvíteyrum er okkur að góðu kunn sem einsöngvari, óperusöngkona og leiðbeinandi á vinsælum námsskeiðum fyrir söngfólk hér í firðinum.  Sjá nánar: Yfirlit yfir feril  
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kona stjórnar Heimi, því Stefán hefur áður fengið leyfi frá störfum og þá hljóp Sólveig Sigríður Einarsdóttir, betur þekkt sem Sísa á Mosfelli, í skarðið með góðum árangri.

Sem fyrr mun Thomas Higgersson annast undirleik og raddþjálfun.  Við minnum á að kórinn stendur öllum opinn sem hafa áhuga á skemmtilegum félagsskap og telja sig geta sungið tiltölulega skammlaust.  Áhugasamir geta haft samband við Jón formann í síma 8921319 eða sent póst á heimir@heimir.is

 

 

 

Styttist í að vetrarstarfið fari af stað

Kórinn hefur verið í löngu og góðu sumarfríi.  Yfirleitt byrjar vetrarstarfið um miðjan október með æfingum á nýju efni.  Það er lítið að frétta fyrr en það skellur á !

Sumarfrí

Nú erum við karlarnir komnir í frí eftir viðburðaríkt starfsár. Mun ég rekja það hér í stuttu máli.

Frá hausti fram að áramótum var unnið við að fullgera dagskrá sem var frumsýnd á Þrettándaskemmtun í Miðgarði og hét Upp skalt á kjöl klífa.  Unnið var með Örlygsstaðabardaga. Agnar á Miklabæ sauð saman handrit og Stefán söngstjóri valdi lög sem hæfðu efninu.  Agnar og Hannes Örn Blandon fluttu textann sem var brotinn upp með viðeigandi leikhljóðum og söng kórsins.  Þessi dagskrá var einnig flutt á Hvammstanga, í Langholtskirkju, í Laugaborg í Eyjafirði og loks tekin upp í Miðgarði.

"Tveir góðir saman" var vinnuheiti samstarfsverkefnis Heimis og Karlakórs Reykjavíkur. Kórarnir hittust tvisvar sinnum í mars og héldu 4 tónleika, á Akureyri, í Miðgarði og í Langholtskirkju. Það fór afar vel á með mönnum og flestir sammála um að þetta megi endurtaka á einhvern hátt.  Þá sýndu KR-ingar mikin höfðingsskap er þeir afhentu okkur forláta ferðatösku Stefáns Íslandi til varðveislu í Stefánsstofu.

Vorferð var farin á Dalvík og Ýdali með Óskar P. í farteskinu og á Sæluviku áttum við frekar annríkt. Fyrst ber að nefna mikla Atvinnu og mannlífssýningu á Sauðárkróki þar sem kórinn sýndi á sér aðra hlið með ýmsum munum úr starfi liðinna ára og málverki Hallgríms Helgasonar.  Einnig komum við fram með Málmblásarasveit Norðurlands, komum fram á Friðriksvöku og loks á Sæluvikutónleikum.  Gestakór okkar skipuðu sunnlenskir höfðingjar úr Karlakór Hreppamanna sem komu hingað norður til að skemmta Skagfirðingum og ekki síður, skemmta sér með Skagfirðingum !  (Sjá bráðskemmtilega ferðasögu Þorleifs Jóhannessonar á heimasíðu Kk. Hreppamanna hér:  Ferðasaga  ).  Starfsárinu lukum við svo með Árshátíð í umsjón 1. bassa.

Við viljum þakka öllum þeim sem sóttu þessa viðburði kærlega fyrir komuna og samstarfsaðilum viljum við þakka fyrir góð kynni og góðar stundir. 

Við minnum á ítarlegri umfjöllun hér á fréttasíðunni hjá okkur og skemmtilegar myndir úr starfinu á myndasíðunni.

 

 

Árshátíð 2010

Árshátíð Heimis var haldin með pomp og prakt undir styrkri stjórn 1. bassa.  Öll stóð samkoman undir væntingum og samkomugestir héldu ánægðir út í vornóttina.

Starfsári lokið

Allt fór vel fram nú um helgina, kórarnir buðu upp á kraftmikla og skemmtilega dagskrá og í lok tónleikana voru allir kórarnir kallaðir upp á svið í einu og fluttu sameiginlega 2 lög.  Geirmundur spilaði fyrir dansi fram eftir nóttu og var ekki annað að sjá en að kórfólk og aðrir dansleiksgestir skemmtu sér hið besta..

Nú eru Sæluvikutónleikar að baki og í næstu viku ljúkum við starfsárinu með veglegri árshátíð.  Ekki er ólíklegt að kórinn verði kallaður saman fyrir Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í sumar en aðrir viðburðir eru ekki í farvatninu svo að vitað sé.

 

Kóramót á Sæluviku

Laugardaginn 1. maí verða Sæluvikutónleikar í Miðgarði.  Að venju eru það Heimir og Rökkurkórinn sem bjóða til sín karlakór og blönduðum kór og í ár eru sunnlenskir straumar allsráðandi

Gestir Heimis að þessu sinni eru hinir bráðhressu félagar í Karlakór Hreppamanna sem Edit Molnár stjórnar af mikilli röggsemi.  Það voru 20 karlar í uppsveitum Árnessýslu sem tóku sig til og stofnuðu kórinn á vordögum 1997. Fyrstu opinberu tónleikarnir voru í Heilsuhælinu í Hveragerði að kvöldi 30 apríl það ár og má því segja að hér á Sæluviku séu þeir að fagna sínu 13. starfsári.  Edit Molnár hefur stjórnað kórnum frá upphafi og hennar ágæti eiginmaður Miklós Dalmay sér um undirleik, en hann er einn af virtustu tónlistarmönnum landsins, hefur m.a. verið einleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Karlarnir eru nú um 60 talsins og teljast því með fjölmennari karlakórum hér á landi.  Þeir þykja framsæknir og skemmtilegir og okkur Heimismenn hlakkar ákaflega til að taka lagið með þeim, bæði á tónleikum og jafnvel eftirá.....

Gestakór Rökkurkórsins er Söngsveit Hveragerðis undir stjórn Margrétar Stefánsdóttur sem heimamenn þekkja betur sem Möggu í Víðidal. Söngsveitin var einnig stofnuð í apríl 1997, hefur starfað óslitið síðan og komið fram víða um land.  Einnig hafa þau gefið út geisladisk.  Margrét á það til að syngja einsöng með sveitinni og það væri ekki amalegt að fá að heyra í Margréti nú í lok Sæluviku.

Dagskráin hefst kl. 20:30 og stendur fram eftir kvöldi, en að henni lokinni leikur hljómsveit Geirmundar fyrir dansi.  Aldurstakmark á dansleik er 18 ár.  Miðaverð á söngskemtun er kr.2500.- og kr. 2000 á dansleikinn.

Sæluvikutónleikar

Kórfélagar fjölmenntu á Friðriksvöku í Miðgarði og fylgdust með Friðriki Þór og Árna Gunnarssyni ræða við gesti sína í notalegu sófaumhverfi um verk Friðriks og skagfirska tengingu í einkalífi og myndum hans.  Kórinn kemur við sögu í mörgum myndum hans og þótti við hæfi að við tækjum nokkur lög.  Þá var hann heiðraður af Sveitarfélaginu Skagafirði og við enduðum dagskrána með því að syngja Skagafjörð.

Laugardaginn 1. maí verða Sæluvikutónleikar í Miðgarði.  Það eru Heimir og Rökkurkórinn sem bjóða til sín karlakór og blönduðum kór.  Að þessu sinni eru það Karlakór Hreppamanna og Söngsveit Hveragerðis undir stjórn Margrétar Stefánsdóttur, eða Möggu í Víðidal.  Dagskráin hefst kl. 20:30 og stendur fram eftir kvöldi, en að henni lokinni leikur hljómsveit Geirmundar fyrir dansi.  Aldurstakmark á dansleik er 18 ár.  Miðaverð á söngskemtun er kr.2500.- og kr. 2000 á dansleikinn.

 

Sæluvika - Kórbrass

Karlakórinn Heimir tók þátt í tónleikum Málmblásarasveitar Norðurlands í Miðgarði, Kórbrass.  Blásararnir voru einir á sviðinu fyrir hlé og fóru víða í lagavali.  Eftir hlé stormuðum við á pallana og tókum með þeim innganginn að Zaraþústra.  Þá tókum við 3 lög einir og sér áður en þeir sameinuðust okkur á ný í ekki ómerkari lögum en Va Pensiero, Brennið þið vitar, og Finlandia sem kynnir fræddi okkur á að væri þjóðsöngur Bíafra !  (Og hvað haldiði, hann var ekki að bulla í okkur, eins og má sjá og heyra hér)
Lokalagið á dagskránni var ekki ómerkari "þjóðsöngur", en þá fluttum við Skagafjörður með lúðraþyt og söng. 
Áheyrendur voru ánægðir með tónleikana, fannst þetta öðruvísi upplifun og mjög kraftmikil, enda vorum við lafmóðir eftir að hafa tekið vel á því móti blásurunum.  Myndir frá viðburðinum eru í myndasafni, eða smella hér
Næst kemur kórinn fram á Friðriksvöku, en þar verðum við frekar óformlegir og tökum nokkur lög úr myndum Friðriks Þórs kvikmyndagerðarmanns.

Myndir frá Atvinnu, mannlífs og menningarsýningu

Heimir sýndi á sér aðrar hliðar nú um helgina með kynningarbás á Atvinnu, mannlífs og menningarsýningunni í Íþróttahúsinu á Króknum. Þar sýndum við ýmsa muni og myndir sem tengjast sögu kórsins meðal annars auglýsingaspjöld úr utanlandsferðum og innrammaðar myndir af öllum söngstjórum frá upphafi.  
Okkar helsta tromp var málverk sem listamaðurinn Hallgrímur Helgason málaði í stærðinni 4 x 2,5 m og studdist við kórmynd af plötumslagi sem er líklega tekin í kringum 1990.  Hallgrímur var svo almennilegur að lána okkur verkið á þessa sýningu.  Þetta vakti mikla athygli og skemmti fólk sér við að bera kennsl á kórfélaga,  menn breytast talsvert á 20 árum og nokkrir eru fallnir frá.  Myndir frá sýningunni má finna hér:  Sýning

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna á básinn og tökum sannarlega til okkar áeggjanir um að málverkið verði kyrrsett hér í firðinum með einhverjum hætti.  Þeim Heimismönnum sem unnu að undirbúningi sýningarinnar og þeim sem stóðu vaktir meðan á henni stóð þökkum við vel unnin störf.  Verkefnisstjórnin á heiður skilið, þetta var okkur til mikils sóma.

Subscribe to RSS - Fréttir